ÁRANGURSRÍKT SAMSTARF LIONSKLÚBBA

ÁRANGURSRÍKT SAMSTARF LIONSKLÚBBA

Lionsklúbbarnir Njörður og Víðarr í Reykjavík afhentu Heyrnar- og talmeinastöð Íslands (HTÍ) tækjagjöf að andvirði um 13.000.000 þann 27. maí sl.  Gjöfin er gefin í samstarfi við Alþjóðahjálparsjóð Lions LCIF, sem lagði helming til hennar með klúbbunum.  Afhending gjafarinnar fór fram í Lionsheimilinu í Reykjavík í móttökuhófi fyrir alþjóðaforseta Lions Patti Hill, vegna heimsóknar hennar til landsins. 

LCIF sjóðurinn setur ýmis skilyrði fyrir því að styðja verkefni klúbba. Það þarf að vera mjög brýnt fyrir viðkomandi samfélag og krafa er gerð um  að a.m.k. tveir klúbbar í sama umdæmi standi fyrir verkefninu.

Við Njarðarfélagar vorum svo lánsamir að Lkl. Víðarr samþykkti að vinna með okkur að úrbótum á tækjakosti Heyrnar- og talmeinastöðvarinnar. Alþjóðahjálparsjóðurinn mat síðan umsókn klúbbanna svo brýna, fyrir allan landslýð, að hann samþykkti að styðja verkefnið að hálfu á móti klúbbunum.

Ástæðan fyrir þessum styrk var neyðarkall frá HTÍ sökum vanmáttar stofnunarinnar til endurnýjunar á búnaði til heyrnamælinga. HTÍ hefur um langt skeið búið við fjársvelti svo í óefni var komið.  Afleiðing lélegs tækjabúnaðar hefur verið starfsmannaflótti og mannekla. Biðlistar hafa sífellt lengst og jafnvel börn á aldrinum 0-18 ára, sem eru forgangshópur hjá HTÍ, hafa þurft að bíða í 6-12 mánuði eftir þjónustu, sem er algjörlega  óviðunandi.  Þess vegna var lögð megin áhersla á að velja m.a. tækjabúnað sem hentar sérstaklega fyrir áðurnefndan aldurshóp. 

Styrkur Lionsklúbbanna  og LCIF miðar að því að útvega HTÍ nauðsynleg mælitæki til að sinna öllum þeim mælingum, sem þörf er á til að tryggja skjóta greiningu og snemmtæka íhlutun við börn með heyrnarvandamál. Um er að ræða mælitæki sem má nota allt frá einföldum skimunarmælingum fyrir nýbura og eldri börn til flóknustu mælinga s.s. heilastofnsmælinga. Þá er einnig um að ræða hjálparbúnað til að auðvelda sérfræðingum HTÍ mælingar á yngri börnum sem ekki geta sjálf svarað mælingum. Tækin nýtast einnig við kennslu heyrnarfræðinema og sérfræðilækna varðandi heyrnarmælingar barna.

HTÍ starfrækir einu alhliða heyrnarþjónustustöðina á Íslandi. Takmarkið er að búa hana þeim mæli- og greiningarbúnaði, sem nauðsynlegur er til að sinna öllum heyrnarskertum og heyrnarlausum börnum á landinu.

Stöðin stefnir að því að kenna sjálf, heyrnarþjónustufólki, allar tegundir heyrnarmælinga barna og unglinga. Verkleg kennsla heyrnarfræðinema hefst haustið 2024 og kennsla sérfræðilækna í háls-nef og eyrnalækningum vonandi sömuleiðis á árinu.

Það er einlæg von Lionsklúbbana sem standa að þessum stóra styrk, að hann bæti ekki aðeins úr brýnustu vandræðum HTÍ. Hann hreyfi þannig við ráðamönnum landsins, að þeir skilji mikilvægi þess að allur aðbúnaður, tækjakostur og þjónusta Heyrnar og talmeinastöðvarinnar verði ekki áfram hornreka þegar kemur að fjárveitingum.

Daníel Þórarinsson