Upplýsingastefna

Inngangsorð

Upplýsingastefna þessi er samin og sett fram til þess að mynda grunn og undirstöður fyrir upplýsingamiðlun Lionshreyfingarinnar á Íslandi, bæði hvað varðar innra og ytra flæði upplýsinga. Hér eru skilgreind réttindi Lionsfélaga til upplýsinga og um leið skyldur þeirra og yfirstjórnar til þess að hafa tiltækar og miðla upplýsingum og þekkingu. Stefnunni fylgja einnig ýmsar leiðbeiningar  og „verkfæri“ til almannatengsla. Upplýsingastefna Lions nær yfir samskipti og kynningarmál í víðasta samhengi og undanskilur í raun ekkert það og enga þá sem nýta má til kynningar á Lionshreyfingunni í þeim tilgangi að efla þekkingu um hana og áhuga fólks til að ganga til liðs við og starfa ötullega innan Lions.

Grundvöllur og leiðarljós

Grundvöllur: Lions er fyrst og fremst félagsskapur fólks sem vill rækta vináttu sína og láta um leið gott af sér leiða. Markmið Lionsklúbba eru: Að vekja og efla anda skilnings meðal þjóða heims. Að efla meginreglur heilbrigðs stjórnarfars og borgaralegra dyggða. Að starfa af áhuga að aukinni velferð byggðarlagsins og á sviði félagsmála, menningar og almenns siðgæðis. Að tengja klúbbana böndum vináttu, góðs félagsanda og gagnkvæms skilnings. Að skapa vettvang fyrir frjálsar umræður um öll málefni, sem almenning varðar, að því undanskildu að ekki séu rædd meðal klúbbfélaga málefni stjórnmálaflokka né heldur sértrúarhópa. Að hvetja félagslynda menn og konur til að þjóna byggðarlagi sínu án persónulegs ávinnings og hvetja til dugnaðar og eflingar siðgæðis í viðskiptum, iðnaði, opinberri starfsemi og einkarekstri.