Nóvember er mánuður vitundarvakningar um sykursýki

Það er nú orðið vel þekkt að sykursýki af tegund 2 er vaxandi vandamál í heiminum öllum. Það er þó
farið að hægja á greiningu nýrra tilfella á vissum svæðum eins og í hinum vestræna heimi en
heildarfjöldinn sem býr við þennan langvinna sjúkdóm er þó enn að aukast. Er það meðal annars
vegna framfara í meðferð sem hefur haft þau áhrif að fólk lifir lengur en áður og þá stundum með
flókna og erfiða fylgikvilla. Heildarbyrði þjóðfélagsins er þannig að aukast. Lionshreyfingin leggur hér
lið eins og við vitum. Þó við þekkjum öll dæmi um að beinar blóðsykurmælingar hafi svipt hulunni af
ógreindri sykursýki einstaklinga er ekki síður mikilvægt að fræða og vekja athygli almennings og
ráðamanna með fjölbreyttum hætti – ágætt að nota alþjóðadaginn 14. nóvember í það.
Flestir tengja þennan sjúkdóm við óhollt mataræði, hreyfingarleysi og ofþyngd á fullorðinsárum. Það
er vissulega rétt að ofþyngd er stærsti breytanlegi áhættuþátturinn og það hefur reynst mögulegt að
koma mörgum í sjúkdómshlé sé tekið harkalega á þessum málum. En ef grannt er skoðað kemur í ljós
að flestir einstaklingar sem eru of þungir fá ekki sykursýki og ekki eru allir með sykursýki of þungir
eða lífsstíllinn í molum. Undir samnefnaranum sykursýki 2 leynast þannig ýmis sérstök afbrigði með
misjafnlega flóknar erfðafræðilegar orsakir - ættarsagan skiptir hér höfuðmáli. Það er því réttara að
tala um sjúkdómshlé frekar en lækningu ef vel tekst til með lífsstílsbreytingar eða aðra meðferð í
dæmigerðri sykursýki af tegund 2.
Sykursýki af tegund 1 er sjálfsofnæmissjúkdómur sem þýðir að líkaminn hefur brugðist við
utanaðkomandi áreiti með myndun mótefna sem síðan taka þátt í að eyðileggja vissar frumur
líkamans hratt og örugglega. Við vitum ekki hvað það er í umhverfinu sem hleypir þessu ferli af stað
og fæstir gera sér grein fyrir því að þessi sjúkdómur getur greinst hvenær sem er ævinnar. Nýgengi
(fjöldi sem greinist á ákveðnu tímabili og aldri miðað við höfðatölu) er svipað fyrir tvítugt og um 70
ára aldur. Hér hafa einnig orðið gríðarlegar framfarir í meðhöndlun þó ekki sé hægt að koma fólki í
sjúkdómshlé eða lækna þessa tegund sykursýki. Þetta eru bæði tæknilegar framfarir og framfarir
hvað varðar hvernig best er að þjónusta einstaklingana svo ná megi árangri. Allt eru þetta
kostnaðarsamar framfarir sem lækka dánartíðni en það þýðir að nú lifa æ fleiri fullorðnir með
þennan sjúkdóm áratugum saman, gjarnan með marga virka fylgikvilla sem hægt er að halda
misjafnlega vel í skefjum. Þetta þýðir þannig mikla og langvinna sjúkdómsbyrði fyrir einstaklingana
en einnig geysilega mikinn kostnað fyrir þjóðfélagið. Það er því umhugsunarefni að heyra um nýjar
rannsóknir sem spá því að fjöldi þeirra sem lifa með sykursýki 1 muni allt að tvöfaldast á næstu 20
árum en yfirgnæfandi meirihluti þessara einstaklinga verða fullorðnir. Þetta er nokkuð sem mikilvægt
er að vekja athygli á núna því heilbrigðiskerfi okkar er engan vegin undirbúið fyrir þennan fjölda. Hér
er hægt að leggja lið!