Orkester Norden er samstarfsverkefni Lionsumdæma á Norðurlöndunum fyrir ungt fólk.

Orkester Norden er samstarfsverkefni Lionsumdæma á Norðurlöndunum fyrir ungt fólk.

Orkester Norden, („Norræna hljómsveitin“), er starfrækt í tæpar 2 vikur á hverju sumri.  Á haustin eru sendar upplýsingar um hljómsveitina til tónlistarskóla á Norðurlöndunum og í Eystrasaltslöndunum og nemendum boðið að sækja um.  Umsækjendur senda inn hljóðskrá með umsókn sinni. Listræn stjórn Orkester Norden rýnir allar umsóknir og velur þátttakendur.  Hljómsveitin samanstendur af hefðbundinni hljóðfæraskipan sinfóníuhljómsveita; málmblásturs-, tréblásturs-, strengja- og slagverkshljóðfæri.  Efnisskráin er mismunandi frá ári til árs en alltaf metnaðarfull og spennandi. 

Unnið er í æfingabúðum í rúma viku undir leiðsögn færustu atvinnuhljóðfæraleikara og hljómsveitarstjóra frá Norðurlöndunum.  Fyrstu fimm dagana eru raddæfingar að morgni og samæfingar síðdegis.  Aðalhljómsveitarstjóri tekur síðan við æfingum næstu þrjá daga þar á eftir til að undirbúa tónleikana sem ávallt eru haldnir í flottum, hljómgóðum tónleikasölum.

Þessa dagana er Orkester Norden að störfum í borginni Lathi í Finnlandi.  Tveir þátttakendur eru frá Íslandi, en þar að auki „eigum við“ leiðbeinandann í tréblásaradeildinni; Bryndísi Þórsdóttur, fagottleikara í Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Fyrri tónleikar Orkester Norden verða 4. júlí í Sibelíusarsalnum í Lathi og þeir seinni í Klettakirkjunni í Helsinki, 5. júlí.