Náttúruhamfarir á Filippseyjum

Ágætu Lionsfélagar

Á Filippseyjum hefur Lions hafið hjálparstörf, eins og fram kemur hér að neðan og koma peningaframlög til hjálparinnar frá alþjóðahjálparsjóði Lions LCIF.   Við undirrituð biðlum því til Lionsklúbba á Íslandi að leggja LCIF lið til stuðnings við hjálparstarfið á Filippseyjum.   Framlög í LCIF til Filippseyja (Philippines Typhoon) eða til neyðaraðstoðar (Disaster Relief), veitir rétt til Melvin Jones  tilnefninar.

typhoon-philippinesGríðarlegt tjón hefur orðið á Filippseyjum vegna ofurfellibylsins Haiyan sem gekk yfir eyjarnar s.l. föstudag. Sameinuðu þjóðirnar áætla að yfir 11,3 milljónir Filippseyinga hafi orðið fyrir beinum áhrifum af hamförunum, en endanlegar tölur um mannfall eru enn á reiki; ástandið er grafalvarlegt.

Lions, sem er stærsta þjónustuhreyfing í heimi, er oft fyrst til að bregðast við náttúrhamförum og Lions vinnur að uppbyggingu á hamfarasvæðum, þangað til verkefninu er lokið. Lionsfélagar sem búa á hamfarasvæðum vita betur en aðrir, hvers þeirra samfélag þarfnast og LCIF er í samstarfi við þá.

philppines
Hér má sjá Lionssjálfboðaliða að störfum á hamfarasvæðinu >>>>>>

Lions leggur lið – 95 milljónir króna á fyrsta degi

Innan nokkurra klukkustunda frá því hörmung dundu yfir, hafði Alþjóðahjálparsjóður Lions – LCIF veitt 3,7 milljónir króna til fyrstu hjálpar á Filippseyjum. Sama dag samþykkti stjórn LCIF að veita einnig 12,3 milljónir króna sem stórslysastyrk. LCIF veitti samtals 16 milljónir króna á fyrsta degi hamfaranna.

 

Þegar fellibylurinn skall á, var Wayne Madden stjórnarformaður LCIF á fundi í Singapore með helstu leiðtogum Lions á svæðinu, þar með talið Lions frá Filippseyjum og fleiri löndum Austur-Asíu. Stutt hlé var gert á fundinum, sem Lionsfélagarnir notuðu til að hafa sambandi við sitt fólk, klúbbinn sinn, umdæmið og stuðningsaðila. Innan klukkustundar höfðu þeir safnað 45,6 milljónum króna, sem verður varið til að draga úr hörmung á Filippseyjum.

Lions í Japan og Taiwan gáfu 33,3 milljónir krónur. Alls um 95 milljónir króna komu frá Lions fyrsta daginn, en þetta er bara dropi í hafið. Við þurfum öll að bregðast við.

Við gefum 100%

Við á Íslandi höfum fengið rausnarlega styrki frá LCIF, þegar við höfum þurft á því að halda, nú þurfa Filippseyingar á okkur að halda. Við skorum á alla Lionsfélaga og alla Lionsklúbba á Íslandi að rétta fram hjálparhönd. Munið að margt smátt gerir eitt stórt. Hver einasta króna fer óskert til hjálparstarfs, ekkert fer í milliliði og yfirbyggingu.

Lions hjálpar Lions

Lionsfélagar á Íslandi og aðrir sem vill styðja hjálparstarf LCIF, geta lagt inn á þennan reikning:

LCIF-reikningur Lions á Íslandi: 516-26-7722. Kennitala 640572 0869

Með Lionskveðjum og kærum þökkum

Guðrún Björt Yngvadóttir
LCIF-stjóri MD-109

Daniel G. Björnsson
LCIF-fulltrúi 109-A

Árni V. Friðriksson
LCIF-fulltrúi 109-B