Melvin Jones stofnandi Lions Clubs International

Melvin Jones stofnandi Lions Clubs International

13.janúar er fæðingardagur Melvin Jones, mannsins sem stofnaði Lions Clubs International og skapaði þessa alþjóðlegu hreyfingu. Hann var farsæll viðskiptamaður áður en hann ákvað að nota krafta sína og orku í eitthvað stærra, að þjóna öðrum. Það var heldur ekki vanþörf á þar sem fyrri heimsstyrjöldin og hröð iðnvæðing skapaði gríðarleg samfélagsleg vandamál og þar átti hugsjón Melvin Jones, að samtakamáttur sé afl breytinga til góðs, rætur sínar.

Hugsjón hans var einföld. Ef fólk sameinar krafta sína getur það raunverulega breytt samfélagi sínu. Þessi hugsjón leiddi til stofnunar Lions Clubs International í Chicago þann 7. júní árið 1917 sem í dag er stærsta þjónustuhreyfing heims.

Þessi hugsjón mótar Lions enn í dag og lifir áfram í slagorði Lionshreyfingarinnar „We serve“ í beinni þýðingu "Við þjónum".  Lionshreyfingin á Íslandi hefur lagt út af þessum orðum með einkunnarorðunum „Við leggjum lið“. Þegar við minnumst fæðingardags Melvin Jones erum við ekki einungis að halda nafni hans á lofti heldur einnig hugsjón og viðhorfum hans sem endurspeglast í starfi Lionsfélaga um allan heim, alla daga.

Melvin Jones fæddist 13. janúar 1879 í Fort Thomas, litlum bæ í Arizona. Lionsfélagar í Fort Thomas hafa reist minnismerki um þennan mannvin  í fæðingarbæ hans.

Melvin Jones var hugsjónamaður en raunsær. Hann elskaði líka orðatiltæki.  Jones, sem aldrei fegraði sannleikann, hafði eitt uppáhalds orðatiltæki snyrtilega rammað inn á skrifstofu sinni:  „Sannleikurinn og rósirnar eru þyrnótt“

Þessi dagur minnir okkur á að spyrja okkur sjálf: Hvar get ég lagt lið? Allir sem vilja kynnast Lions betur eða og taka þátt í gefandi félags- og mannúðarstarfi, eru velkomnir að ganga til liðs við hreyfinguna. Lionsklúbbar eru út um allt land.

Með bestu kveðjum inní nýtt ár
Anna Fr. Blöndal
Fjölumdæmisstjóri 2025-2026
MD 109 Iceland

Minnismerki í Fort Thomas

Minnismerki í Fort Thomas