Lionsklúbbur Stykkishólms færði rausnarlegar gjafir

Vetrarstarfi Lionsklúbbs Stykkishólms er senn að ljúka og hafa klúbbfélagar unnið vel að ýmsum verkefnum í vetur. Helstu fjáraflanir klúbbsins eru sala dagatals og jólakorta, sala heillaóskaskeyta, blómasölur auk ýmissa verkefna sem Lionsmenn eru alltaf tilbúnir að sinna. Allir fjármunir sem félagar afla í nafni klúbbsins meðal almennings og fyrirtækja eru settir í verkefni sem klúbbfélagar velja að styrkja. Flest verkefnin tengjast yngstu eða elstu íbúunum og einnig St. Franciskusspítalanum. Nýverið heimsóttu Lionsmenn nemendur og starfsfólk Leikskólans í Stykkishólmi og afhentu þeim skjávarpa og fjórar iPad spjaldtölvur til að nota í skólastarfinu. Daginn eftir var spítalinn heimsóttur og þar var Háls- og bakdeildinni afhent æfingahjól sem hentar vel þeim sem geta ekki notað hefðbundin æfingahjól. Einnig var deildinni formlega afhent ómskoðunartæki en fjársöfnun vegna þess var í umsjón Lionsklúbbsins.

Mynd_1530048

Frumkvæði að söfnuninni átti Jóhann Frímann Álfþórsson sem var sjúklingur á deildinni. Hann fékk Lionsklúbbinn í lið mér sér og með aðstoð Velferðarráðuneytis, Stykkishólmsbæjar, verkalýðsfélaga, fyrirtækja og annarra sjóða tókst að safna þeim 6,7 milljónum sem tækið kostaði. Á sumardaginn fyrsta bauð klúbburinn svo á fund sinn fulltrúa Aftanskins, félags eldri borgara í Stykkishólmi, fulltrúa frá Lionsklúbbnum Hörpu og umsjónarmönnum skátastarfs Royal Rangers í Stykkishólmi. Þessir aðilar tóku þar við styrkjum frá klúbbnum sem viðurkenningu fyrir gott starf í þágu samfélagsins.

Sjá frétt í Skessuhorninu >>>>>