Frétt frá Lkl. Ylfu Akureyri.

Fyrsti fundur Lkl. Ylfu Akureyri var haldinn 22. september sl. Þessi klúbbur var stofnaður í vor af konum á Akureyri og nágrenni. Einungis var haldinn þessi eini stofnfundur og síðan tókum við okkur frí yfir sumarið. En þrátt fyrir að engir fundir hafi verið haldnir þá var samt samband milli allra Ylfanna á Netinu. Það var góð leið til að halda því nýja sambandi sem þessar konur höfðu myndað.

 Stjórn klúbbsins og varastjórn ásamt 2. varaformanni hafa í raun unnið sem ein stjórn.  Það fyrirkomulag er örugglega komið til að vera hjá okkur. Við höfum komið okkur upp lokuðu svæði á Facebook þar sem við getum „rætt“ saman. Það er reynsla okkar að þau netsamskipti ganga betur og auðveldar fyrir sig en venjulegur tölvupóstur. Þar sem allar Ylfurnar eru tölvuvæddar þá eru öll gögn sem klúbbinn varða send rafrænt til klúbbkvenna til kynningar og upplýsinga.

 Það má með sanni segja að þessi fyrsti fundur haustsins tókst með miklum ágætum. Okkur sem stóðum að stofnum klúbbsins er mikið í mun að virkja allar konurnar og því höfum við ekki enn skipað nefndir.  Mestur hluti fyrsta fundar fór  í hugmyndavinnu  um framtíð Ylfu. Það gaf konunum tækifæri á að kynnast enn betur. Það skorti ekki hugmyndirnar um  hvernig hafa bæri góðan Lionsklúbb.  Til gamans má geta þess að allflestar tillögurnar voru um vinnu inn á við í klúbbnum.

Það er sameiginlegt með okkur öllum að við viljum vera í Lions til þess m.a. að bæta okkur sjálfar.  Þess má geta að þær sem höfðu  sótt „Leiðtogaskóla Lions“ nýttu sér þá þekkingu sem þær höfðu fengið þar við skipulagningu hópavinnunnar. Skólanum var sýndur mikill áhugi og ætla nokkrar að sækja um „skólavist“ næsta ár.

Gerður Jónsdóttir ritari Lkl. Ylfu.