Alþjóðaþing Lions í Mílanó 2019

Alþjóðaþing Lions í Mílanó 2019

Alþjóðaþing Lions var haldið í Mílanó Ítalíu í byrjun júlí 2019. Ríflega 40 Íslendingar voru á þinginu þar sem mikið var um dýrðir, eins og endranær.

Það má sanni segja að þetta hafi verið þingið hennar Guðrúnar Bjartar því hún var að ljúka starfsári sínu sem alþjóðaforseti.  Guðrún hefur verið framúrskarandi í sínu starfi allt árið.  Á  þinginu mæddi mikið á henni og var hún á sviðinu nánast allan tímann og átti salinn.  Hún heillaði alla þingfulltrúa sem voru að springa úr stolti yfir alþjóðaforsetanum sínum.

Í lok þingsins tók Dr. Jung-Yul Choi, frá Suður Kóreu við embætti af Guðrúnu Björt og frá Íslandi tók  Ellert Eggertsson við sem fjölumdæmisstjóri, Jóhanna Thorsteinsson sem umdæmisstjóri í 109A og Bragi Ragnarsson sem umdæmisstjóri í 109B. 

Til að heiðra Guðrúnu Björt, alþjóðaforseta, færðu Lionsfélagar á Íslandi Alþjóðahjálparsjóði Lions, LCIF, peningagjöf að upphæð kr. 3.160.000.-   Einnig samþykktu þingfulltrúar á Lionsþinginu í Reykjavík í apríl að stofna Heiðurssjóð Guðrúnar Bjartar.  ,,Stýrurnar“ okkar (Björg Bára Halldórsdóttir fráfarandi fjölumdæmisstjóri, Geirþrúður Fanney Bogadóttir fráfarandi umdæmisstjóri í 109A og Sigfríð Andradóttir fráfarandi umdæmisstjóri í 109B) fóru á svið og færðu Guðrúnu þakkir fyrir hennar frábæru störf sem alþjóðaforseti um leið og þær afhentu gjöfina til LCIF og sögðu frá stofnun heiðurssjóðsins.