300.000 krónur til Hæfingarstöðvarinnar

- Happdrætti Lionessuklúbbs Keflavíkur til góðra mála

Skemmtinefnd Lionessuklúbbs Keflavíkur stendur fyrir hinni árlegu Góugleði ár hvert. Á þessu kvöldi er ávallt happdrætti sem allir taka þátt í. Vinningum er safnað hjá einstaklingum, fyrirtækjum og þá gefa fjölmargir listamenn vinninga til happdrættisins.

haefingarstodin_lionessur_net
Lionessur ásamt Fanney forstöðuþroskaþjálfa og þeim Ara Páli Vignissyni og Berglindi Daníelsdóttur. VF-mynd: Hilmar Bragi Bárðarsson

Ágóðinn af happdrættinu er notaður til að styrkja þá sem þurfa á aðstoð að halda og það hefur klúbburinn gert í ein 25 ár.

Í ár veitti skemmtinefnd Lionessuklúbbs Keflavíkur 300.000 króna styrk til Hæfingarstöðvarinnar við Hafnargötu 90 í Reykjanesbæ. Hæfingarstöðin er að byggja sig upp að nýju en þar vantar ýmislegt eftir að myglusveppur gerði vart við sig í húsnæðinu þannig að henda þurfti fjölmörgum hlutum á haugana og gera endurbætur á húsnæðinu.

Fanney St. Sigurðardóttir, forstöðuþroskahjálfi, vill koma á framfæri þakklæti fyrir hönd Hæfingarstöðvarinnar til Lionessa í Keflavík fyrir stuðninginn, sem mun koma að góðum notum.

Fréttin var í Víkurfréttum >>>>>