Stéttarfélögin taka þátt í forvarnarverkefni með Lionsklúbbi Húsavíkur og HSN

Huld Arinbjarnardóttir,  Birgir Þórðarson og Aðalsteinn Árni Baldursson
Huld Arinbjarnardóttir, Birgir Þórðarson og Aðalsteinn Árni Baldursson

Þann 6. desember undirrituðu fulltrúar stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum og Lionsklúbbur Húsavíkur undir áframhaldandi samstarf um stuðning félaganna við verkefni vegna forvarna gegn ristilkrabbameini sem Lionsklúbbur Húsavíkur og HSN á Húsavík hafa sammælst um að standa fyrir áfram það er á árunum 2017 til 2021. 

Sömu aðilar hafa staðið fyrir sambærilegu verkefni síðustu 5 árin. Í ljósi reynslunnar og mikilvægi þessara forvarna hafa aðstandendur verkefnisins ákveðið að halda því áfram með stuðningi úr samfélaginu þar á meðal frá stéttarfélögunum sem leggja verkefninu til kr. 1.000.000,-. Þannig verður áfram hægt að bjóða öllum einstaklingum sem verða 55 ára á ári hverju og búsettir eru á svæði HSN á Húsavík, sem er frá Stórutjörnum í vestri að Brekknaheiði í austri, að gangast undir endurgjaldslausa  ristilspeglun hjá HSN á Húsavík.

Stéttarfélögin sem standa að verkefninu eru: Framsýn, Þingiðn, Starfsmannafélag Húsavíkur og Verkalýðsfélag Þórshafnar.