Málþing í Reykjanesbæ - „Börn í vanda-treglæsi“

Gestir á málþingi
Gestir á málþingi

Laugardaginn 5. nóvember s.l. hélt lestrarátaksteymið málþing í Reykjanesbæ nánar tiltekið í Íþróttaakademíunni. Yfirskriftin var „Börn í vanda-treglæsi“ og er það í fimmta sinn sem lestrarátakshópurninn heldur slíkt málþing en í fyrsta sinn á haustönn og utan Reykjavíkur.

Helgi Arnarson fræðslustjóri Reykjanesbæjar opnaði málþingið á skemmtilegan hátt og ræddi meðal annars um hve mikilvægt það er að hvetja börn til lestrar og að foreldrar lesi fyrir börn. Hann vakti líka athygli á að börnin þurfa að fá nýútkomnar bækur. Hrund Hjaltadóttir lestrarátaksstjóri kynnti Lions hefur nálgast verkefnið, hvernig það kom til og minnti menn á að þetta er alþjóðlegt Lionsverkefni sem er á dagskrá frá 2012-2022.

Læsi - hvað er það? Ragnheiður Gestsdóttir rithöfundur og formaður Ibby á Íslandi spjallaði við okkur á sinn einlæga og skemmtilega hátt og útskýrði fyrir okkur hugtakið læsi sem oft er misskilið sem það að vera tæknilega læs en er í raun hugtak yfir það að geta lesið sér til skilnings og gagns. Hún ræddi líka um samstarf Ibby og Lions og þakkaði Lionsfélögum fyrir þeirra þátt í að bókin NESTI OG NÝIR SKÓR var gefin út.

Að skrifa sig til læsis: Sigrún Jóhannsdóttir talmeinafræðingur og framkvæmdastjóri TMF Tölvumiðstöðvar kynnti fyrir fundargestum aðferð norska kennslufræðingsins Arne Trageton um að yngstu börnin læri að skrifa á lyklaborð tölvu og nota þannig kennsluaðferðina að skrifa sig til læsis í leikskólum og fyrstu bekkjum grunnskólans. Þessi aðferð er einnig góð leið til að kynna tölvuna sem verkfæri í kennslu. Arne Trageton segir að rannsóknir styðji að það sé léttara að læra að skrifa en að lesa og þess vegna sé gott að leyfa börnum að leika sér við að skrifa stafi á lyklaborð.

Lestur er ævilöng iðja: Hrefna Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Heimilis og skóla fræddi okkur um starf samtakanna og kynnti Læsissáttmála þeirra sem gott hjálpartæki fyrir foreldra og kennara til að fá börnin til að lesa meira og hvetja foreldra til að lesa fyrir börn og hlusta líka á þau lesa þegar þau þegar þau hafa náð tökum á lestrinum.

Um það bil 35 gestir sóttu málþingið að þessu sinnni og lýstu margir ánægju sinni með gott málþing og þökkuðu fyrir góða og skemmtilega fyrirlestra. Það verður að segjast eins og er að alltaf vill maður að fleiri fái að njóta fyrirlestranna sem voru mjög góðir eins og alltaf. Við sem skipulögðum málþingið viljum þakka Lionsfélaga í Lionsklúbbi Njarðvíkur Hafsteini Ingibergssyni fyrir frábærar móttökur í Íþróttaakademíunni þar sem við fengum afnot af fyrirlestrarsal endurgjaldslaust og öllum boðið upp á kaffi.

Lestrarátaksteymið stefnir á að halda annað málþing á Norðurlandi eftir áramót.

 Ragnheiður Gestsdóttir rithöfundur

 

Sigrún Jóhannsdóttir

  

Hrefna Sigurjónsdóttir