Lions leggur lið í Úkraínu

Lions leggur lið í Úkraínu
Það sem átti að vera lítið samstarfsverkefni Norðurlandaþjóðanna, að senda 100 smárafstöðvar til skóla og leikskóla í Úkraínu fyrir jólin 2022, endaði í yfir 1,5 milljón evra verkefni (ca.240 milljónir isk.) og 2.253 rafstöðvum.
PDG Björn Hägerstrand á Álandseyjum fékk þessa snilldarhugmynd þegar hann sá að sænskir Lionsfélagar höfðu sent nokkrar rafstöðvar, þegar Rússar byrjuðu að sprengja orku innviði í Úkraínu.
Hann fór strax af stað að láta þennan draum sinn rætast og hafði samband við Lionsvini sína á Norðurlöndunum en áhuginn varð fljótt mikill í öðrum Evrópulöndum líka og að lokum voru það 13 lönd sem unnu verkefnið saman.
Löndin eru Finnland, Ísland, Belgía, Danmörk, Eistland, Frakkland, Þýskaland, Holland, Noregur, Pólland, Svíþjóð , Sviss og Úkraína. Verkefnisstjórn var skipuð einum Lionsfélaga frá hverju þessara landa en mest mæddi á verkefnisstjóranum Birni Hägerstrand en hann sá um að panta rafstöðvarnar, flutning og að halda utan um verkefnið. Einnig var mikil vinna hjá PDG Valentin Kravchenko sem sá um skipulagningu og dreifingu í Úkraínu.
Hver og ein rafstöð var merkt gefanda og viðkomandi landi. Aðal áskorunin var að fá nógu margar rafstöðvar.
Fyrst í stað voru keyptar upp allar birgðir sem fundust á Norðurlöndunum en síðan var farið í það að kaupa rafstöðvar í miklu magni beint frá framleiðanda í Tyrklandi og flytja þær með 7 flutningabílum til Kyiv þar sem Úkraínskir Lionsfélagar tóku við. Þeir sáu um dreifingu innan landsins og fengu lánaða vöruskemmu í Kyiv til þess að geyma brettin meðan á dreifingu stóð (sem er enn í gangi 4/4/23).
Börn sem þurfa að búa við skelfilegar aðstæður fá nú ljós í skólum sínum og leikskólum og finna vonandi lika fyrir kærleik og stuðningi frá Lionsfólki í Evrópu.
Frábær samvinna Lionsklúbba yfir landamæri skilaði miklum árangri, saman erum við öflugri.
 
Björg Bára Halldórsdóttir, PCC MD109