Fjölmennt á kynningarfundi hjá Lkl Keflavíkur

Kynningarfundur hjá Lkl. Keflavíkur
Kynningarfundur hjá Lkl. Keflavíkur

8. maí s.l. hélt Lkl. Keflavíkur kynningarfund til öflunar nýrra félaga.  Fundurinn var undirbúinn af núverandi stjórn undir forystu Skarphéðins Jónssonar formanns, í samvinnu við Rafn Benediktsson varaformann.  Fjölgunarmál höfðu verið rædd í klúbbnum og voru félagar sammála um að leiðin fram væri að breyta klúbbnum í blandaðan klúbb.  Auk þess hafði verið samþykkt að gera þyrfti átak núna í vor og með framhaldi í haust.  Kynningarfundurinn var síðan auglýstur á Facebook í Keflavík auk þess sem félagar létu boð út ganga.  Fundardagskrá var eftirfarandi:  Axel Jónsson, fv. formaður Lkl. Keflavíkur, kynnti klúbbinn.  Jón Pálmason, félagafulltrúi umdæmis 109 A,  kynnti Lionshreyfinguna.  Íris Bettý Alfreðsdóttir, formaður Lkl. Keilis á Vatnsleysuströnd, sagði frá starfi í blönduðum klúbbi en Keilir er blandaður klúbbur. Skarphéðinn formaður stjórnaði fundi.

Það er ánægjulegt frá því að segja, að fjölmenni var á fundinum, en 41 sátu fundinn.  Þar af voru klúbbfélagar 16, annar eins hópur kom frá Lionessuklúbbi Keflavíkur og 8 aðrir gestir. Af þessum hópi skráðu 6 sig tilbúna til að kynna sér Lkl. Keflavíkur enn betur.  Það verður gert í framhaldinu.

Á fundinum var borin upp sú spurning frá félaga í Lkl. Keflavíkur, hvort Lionessurnar vildu ekki sameinast Lionsklúbbnum.  Nokkrar umræður urðu um það, án niðurstöðu.

Þessi fundur sýnir að hljómgrunnur er fyrir Lions í Keflavík, þátt fyrir ótal aðra möguleika þar í félagsmálum.  Það myndi auk þess gera Lkl. Keflavíkur að nýjum kosti að vera blandaður, þar sem aðrir Lionsklúbbar í Reykjanesbæ eru ekki blandaðir.