Áramótakveðja frá fjölumdæmisstjóra

Áramótakveðja frá fjölumdæmisstjóra

Kæru Lionsfélagar.

Um áramót þá er venjan að líta yfir farinn veg og gera upp árið sem er að líða.  Það er óhætt að segja að árið 2020 verði okkur minnisstætt vegna veirunnar og þess usla sem hún olli.  Síðan í mars hefur allt líf okkar verið háð takmörkunum vegna smitvarna og hefur þjóðin verið samhent í baráttunni.  Nú eftir að bólusetningar hefjast mun styttast í að lífið verði eðlilegt á ný.  Það tók okkur lionsfélaga nokkra mánuði að ná jafnvægi við þessar nýju aðstæður, að mestu leyti lagðist klúbbastarf af í mars og var lítið fundað fram á vorið.  Þingin okkar voru haldinn rafrænt og gekk það vel.  Margir klúbbar hafa fundað á vefnum nú í haust og fundið nýjar leiðir til þess að viðhalda klúbbastarfi.  Margar fjáraflanir klúbbanna byggja á samkomum og mannamótum, eðlilega hefur þeim verið frestað það sem af er starfsárinu en vonandi verður hægt að halda uppi kraftmiklu starfi þegar líður á veturinn.

Það er viðbúið að þetta ástand komi til með að hafa varanlegar breytingar í för með sér á samfélagið.  Lionshreyfingin þarf að nýta sér þær breytingar og klúbbarnir þurfa að líta á breytingar sem tækifæri.  Það hefur komið í ljós að ákveðnir hópar standa verr en aðrir í samfélaginu, kannski er þar þörf sem að Lions ætti að líta til. 

Ég óska Lionsfélögum og fjölskyldum þeirra gleðilegs árs og þakka fyrir samstarfið á árinu sem er að líða

Björn Guðmundsson fjölumdæmisstjóri