Rauða fjöðrin

Rauða fjöðrin

Smelltu hér til að kaupa Rauðu fjöðrina
Lionshreyfingin á Íslandi safnar fé á nokkurra ára fresti til góðra málefna undir merkinu „Rauða fjöðrin“.  Nú hafa Lionshreyfingin og Blindrafélagið tekið höndum saman um átak til að tryggja framboð af leiðsöguhundum í landinu til nýrra notenda og til endurnýjunar þeirra hunda sem nú þegar eru til staðar.   

Samstarf Lions og Blindrafélagsins byggir á gömlum merg enda hefur Lionshreyfingin stutt við blinda og sjónskerta með myndarlegum hætti víðs vegar um heiminn í liðlega 100 ára sögu hreyfingarinnar.   

Í þessari landssöfnun  Lionshreyfingarinnar undir merkjum rauðu fjaðrarinnar er það nýmæli að styrkþeginn, Blindrafélagið, kemur mun meira að verkefninu með virkri þátttöku en í fyrri söfnunum., enda er þörfin brýn.  Söfnunin er upphafsátak í þriggja ára verkefni Blindrafélagsins um fjölgun leiðsöguhunda. 

Blindrafélagið beitir sér fyrir því að tryggja félagsmönnum sínum aðgang að þjálfuðum leiðsöguhundum. Leiðsöguhundar eru gríðarlega öflugt hjálpartæki fyrir blint og verulega sjónskert fólk og veita þeir notendum mikið frelsi og aukið öryggi.  

Notandi leiðsöguhunds öðlast frelsi til að komast um í umhverfi sínu, innan dyra sem utan, á eigin forsendum.  Hundarnir leiða notendur sína framhjá hindrunum sem í vegi þeirra verða og þeir gæta þess  til dæmis að notandinn fái ekki trjágreinar í andlitið þar sem þær slúta yfir gangstéttir. Þeir finna auð sæti fyrir notendur sína þar sem það á við sem og afgreiðsluborð.  Þeir gera viðvart um tröppur og eru þjálfaðir til þess að finna ýmsa hluti svo sem lykla eða hanska sem notendur missa á ferðum sínum með hundinum.  Því til viðbótar eru leiðsöguhundar ekki síður góðir félagar og mörg dæmi eru um að þeir hafi rofið félagslega einangrun notenda sinna og stuðlað þannig að virkari þátttöku þeirra í samfélaginu. 

Lionsfélagar selja Rauðu fjöðrina dagana 31. mars til 3 apríl. Landsmenn eru hvattir til að styðja við þetta þarfa verkefni. 

Smelltu hér til að kaupa Rauðu fjöðrina