Kveðja frá þinghöldurum

Velkomin á Lionsþing á Álftanesi 10. og 11. maí 2024

Bessastadir

Lionsklúbbur Álftaness býður Lionsfélaga og gesti velkomna á árlegt þing Lionsfjölumdæmis 109 og  Lionsumdæmis 109 A og B sem  haldið verður á Álftanesi dagana 10. til 12. maí 2024.  Lionsklúbbur Álftaness annast þingið með hjálp Lionsklúbbsins Seylu sem er Lionsklúbbur kvenna hér að nesinu. Þingið, sem er númer 69 í röðinni, fer fram í Íþróttamiðstöðinni á Álftanesi og í Álftanesskóla. Þar eru ágætar aðstæður til þinghalds og veisluhalda, nóg pláss og margar vistarverur. 

Lionsfólk er hvatt til að tryggja sér gistingu á höfuðborgarsvæðinu sem allra fyrst, reynslan sýnir að betra er að vera þar í fyrra fallinu. 

Dagskrá liggur fyrir hér á heimasíðunni ásamt upplýsingum um þingið og þingstörfin. Það auðveldar væntanlegum þingfulltrúum að fylla út skráningareyðublað og kjörbréf. Mikilvægt er að eyðublöðin séu vandlega útfyllt því þau liggja til grundvallar öllu skipulagi þingsins. Þinggjaldið er að þessu sinni 5.000 krónur.

Þingið verður sett  í íþróttamiðstöðinni og mun  bæjarstjóri Garðabæjar, Almar Guðmundsson, ávarpa þingfulltrúa og gesti. Ef veður leyfir verður gengið í skrúðgöngu um nágrennið.

Verið er að skipuleggja afþreyingu, meðal annars skoðunarferð með leiðsögn fyrir maka þingfulltrúa. Við munum vanda til makaferðarinnar, setja saman skemmtilegt kynningarkvöld og hafa hátíðlegt og fjölbreytt lokahóf.

Sérstakur gestur Lionshreyfingarinnar, Pirkko Vihavainen alþjóðastjórnarmaður frá Finnlandi mun bera boðskap alþjóðaforseta Lions til þingsins. Auk þess verða gestir frá öllum norðurlöndunum.

Gestur Lionsklúbbs  Álftaness verður  Dr. Katrín Þórarinsdóttir yfirlæknir gigtardeildar á Landspítalanum en hún hefur óskað eftir stuðningi Lionshreyfingarinnar við gigtarrannsókir á Íslandi. Hugmyndin, sem er í mótun, er að búa til  "Center of Excelence"  fyrir rannsóknir á sjálfsónæmissjúkdómum , þ.m.t. sóragigtar, iktsýki og skyldra sjúkdóma.  Vegna smæðar landsins og sterkra innviða hafa Íslendingar einstakt tækifæri til að leggja hér sitt af mörkum og það mögulega á heimsvísu. Katrín mun kynna málið á þinginu. 

Þinginu lýkur að venju með Lionshátíð á laugardagskvöldinu. Hún er opin öllu Lionsfólki jafnvel þó það hafi ekki skráð sig sem þingfulltrúa. Aðgangur að kynningarkvöldinu á föstudaginn er einnig opið fyrir alla.

Hvað Álftanesið sjálft varðar, þá var það áður sjálfstætt sveitarfélag en sameinaðist Garðabæ árið 2013. Hér búa vel á þriðja þúsund íbúa og uppbygging íbúðarhúsnæðis er hröð um þessar mundir. Þjónustan er borin uppi af Álftanesskóla, leikskólunum Krakkakoti og Holtakoti, Tónlistarskóla Garðabæjar, Álftaneslaug, golfvelli Golfklúbbs Álftaness, reiðhöll hestamannafélagsins Sóta, íþróttamiðstöðinni, skátahúsinu og Litlakoti, sem hýsir aðstöðu eldri borgara. Nesið hefur upp á margt að bjóða sem áhuga vekur. Það er þekkt fyrir að vera mikil náttúruparadís, útsýni er mikið og fagurt, bjartar tjarnir og auðugt fuglalíf. Hér er viðkomustaður margæsarinnar vor og haust. Nesið er kjörið til útivistar, gönguleiðir margar, víðátta mikil og heillandi fjara. Herminjar eru nokkrar við Breiðabólstaði og á Garðaholti.

Á nesinu eru Bessastaðir eins og allir vita, bústaður forseta Íslands og fyrrum aðsetur Bessastaðaskólans. Þar eru m.a. Bessastaðastofa (1766) og Bessastaðakirkja (vígð 1796). Á Bessastöðum hafa verið grafnar upp merkar fornminjar og mikil saga er við hvert fótmál.

Lionsklúbbur Álftaness, sem verður 40 ára á næsta ári, telur það mikinn heiður að fá að standa að Lionsþinginu að þessu sinni og mun gera allt til að vel takist til. Þingið er eins konar árshátíð Lionshreyfingarinnar hér á landi, hreyfingar sem á sér merkar hugsjónir sem speiglast í hinum geðþekku einkunnarorðum, "Við leggjum lið". 

Stöndum saman Lionsmenn, karlar og konur, mætum á þingið, kynnumst, fræðumst og skemmtum okkur saman á Álftanesi 10. til 12. maí. Verið öll hjartanlega velkomin til okkar á nesið græna!

F.h. Lionsklúbbs Álftaness

Þorgeir Magnússon