Skráning

Boð til Lionsþings á netinu 15. maí 2021

 

Fjölumdæmi 109 og umdæmi 109 A og B hafa þá ánægju að bjóða til Lionsþings á Internetinu árið 2021. Hér á eftir eru leiðbeiningar um skráningu og hvernig þingin verða. Í framhaldi af skráningu verða sendar frekari upplýsingar til þeirra sem skrá sig um það hvernig þingið fer fram og hvernig hægt er að tengjast með hugbúnaðinum Zoom. Ekki er þörf á mikilli tölvuþekkingu til að tengjast og við hvetjum ykkur því að vera óhrædd við að skrá ykkur til þings.

 21. apríl 2021

Björn Guðmundsson, fjölumdæmisstjóri,
Jónas Yngvi Ásgrímsson, umdæmisstjóri 109A
Anna Blöndal, starfandi umdæmisstjóri 109B
 

 

Um skráningu og þinghaldið

Á síðasta starfsári voru þingin haldinn á netinu og gekk það í alla staði mjög vel þó að aldrei komi netþing alfarið í staðinn fyrir staðbundið þing. En gildandi reglur hvað varðar fjöldatakmarkanir eru þannig að þrátt fyrir mikinn vilja er ekki mögulegt að halda það sem staðarþing á Akureyri eins og áætlanir okkur gerðu ráð fyrir. Mikil vonbrigði en við þetta verðum við að búa.

 

Þeim sem ætla að taka þátt í þinginu er bent á að skrá sig á netinu. Skráningu á þing þarf að vera lokið eigi síðar en 10. maí. Vakin er athygli á að þeir sem skrá sig á umdæmisþing A eða B geta einnig skráð sig á fjölumdæmisþingið. Dagskrá þinganna er í viðhengi.

 

Nokkur fjöldi lionsfélaga var búinn að skrá sig á þingið sem áformað var að halda á Akureyri. Þær skráningar gilda á rafræna þingið. Það eina sem þarf til að tengjast og taka þátt í þinginu er farsími, spjaldtölva eða tölva. Ekki þarf að skrá sig fyrir neinum hugbúnaði og þingfulltrúum verða sendar ítarlegar leiðbeiningar um hvernig á að tengjast. Notað verður forritið Zoom sem margir hafa kynnst á undanförnum mánuðum þegar samkomur og samskipti hafa verið takmörkunum háð. Halldór Kristjánsson og Jón Pálmason hafa tekið að sér að vera tæknistjórar þingsins.

 

Ekki þarf að greiða nein gjöld vegna þingsins. Klúbbur þarf að vera skuldlaus við hreyfinguna 15 dögum fyrir þing. Nánari upplýsingar um skráningu og kjörbréf. Það er afar mikilvægt að skráning sé vönduð því hún liggur til grundvallar öllu skipulagi þingsins. Öll gögn vegna þingsins verða aðgengileg á www.lions.is á næstunni og verða einnig send í tölvupósti til allra klúbba/þátttakenda. Við minnum þingfulltrúa á að skoða tölvupóst reglulega þar sem búast má við að sendar verði út upplýsingar um þinghaldið.

 

Skráning

Hér á eftir eru nánari upplýsingar um skráningu til þings.

1) Skráning fer fram á netinu í þessum tengli:

https://forms.gle/4RFUYBTjbCfSCJU99

eða með því að smella á tengil í pósti sem fylgir þessu bréfi. Hægt er að skrá sig oftar en einu sinni og gildir þá síðasta skráningin. Hægt er að leiðrétta skráningu með því að skrá sig aftur eða með því að tilkynna breytingu með tölvupósti á lionsthing@lions.is. Síðasta skráning gildir alltaf. Ef þess er óskað geta þingfulltrúar fengið sent skráningarblað en við hvetjum ykkur til að skrá ykkur á internetinu. Skráningu á þing skal lokið eigi síðar en 10. maí.

2. Samkvæmt ákvörðun fjölumdæmisráðs, þá skulu þingfulltrúar sjálfir prenta út öll þinggögn og hafa þau með sér til þings, eða hafa þau tiltæk á tölvu.

 

Kjörbréf

Samkvæmt 32. grein laga Lionsumdæmis 109 skal klúbbstjórn fylla út kjörbréf og skila í síðasta lagi 10. maí 2021.

Kjörbréf eru nú skráð hér á netinu:

https://forms.gle/jxGe9KAjZMh7E5VGA

Reglur um kjörbréf og atkvæðisrétt:

 Hver einstakur klúbbur, sem fengið hefur stofnskrá, og er skuldlaus við alþjóðasamtökin, umdæmi sitt og fjölumdæmi, skal eiga rétt á að senda á fjölumdæmisþing, fyrir sína hönd, einn (1) fulltrúa og einn (1) varamann fyrir hverja tíu (10) félaga eða meiri hluta þess fjölda, sem hafa verið á félagaskrá í a.m.k. eitt ár og einn dag í viðkomandi klúbbi samkvæmt skrám alþjóða-skrifstofunnar fyrsta dag þess mánaðar sem næstur kemur á undan þeim mánuði þegar þing er haldið. Sá meirihluti, sem nefndur er í ákvæði þessu, skal teljast vera fimm (5) eða fleiri félagar.

 Hver einstakur vottaður fulltrúi, sem sjálfur er viðstaddur, skal eiga rétt á að greiða einungis eitt (1) atkvæði í kjöri til hvers embættis sem kjósa þarf í og einungis eitt (1) atkvæði fyrir hvert málefni sem lagt er fyrir viðkomandi þing. Sé ekki öðruvísi tilgreint í lögum þessum leiða atkvæði meirihluta fulltrúa, þegar greidd er atkvæði um málefni, til þess að atkvæðagreiðslan telst vera samþykkt þingsins. Allir kjörgengir fulltrúar verða að vera fullgildir og skuldlausir félagar í klúbbi sem er fullgildur og skuldlaus í umdæminu.

Vangreidd félagsgjöld má greiða og öðlast þannig fullgilda félagsaðild allt að 15 dögum áður en lokað er fyrir staðfestingu kjörbréfa, en tímamörk slíkrar lokunar ákvarðast af reglum viðkomandi þings. Kjörbréfið má einnig nálgast hjá lionsthing@lions.is ef menn kjósa frekar að senda það inn skriflega. Ósk um slíkt skal senda á sama netfang.

 

Við hvetjum klúbba til að fjölmenna á þingið. Tilvalið er fyrir klúbba að taka sig saman og eyða þessum þingdegi saman.