Grein frá Birni Guðmundssyni umdæmisstjóra í 109B

Björn Guðmundsson, umdæmisstjóri 109B
Björn Guðmundsson, umdæmisstjóri 109B

Vegna mistaka þá fór vitlaus grein í blaðið frá Birni Guðmundssyni umdæmisstjóra 109B. Ég bið hlut að eigandi velvirðingar á þessu en hér má lesa grein Björns.
Þorkell Cýrusson ritstjóri

Ágætu Lionsfélagar, í þessum mánuði fer vetrarstarfið af stað í flestum lionsklúbbum í landinu.  Stjórnir klúbbana hafa lagt á sig mikla vinnu við undirbúning vetrarins.  Við þurfum öll að leggja okkar af mörkum til starfsins þannig að það verði skemmtilegt og gefandi.  Eins og stjórnir klúbbanna hafa verið að undirbúa komandi starfsár þá höfum við umdæmisstjórarnir líka verið önnum kafnir í undirbúningsvinnu.  Segja má að sú vinna hafi staðið yfir frá því í janúar síðastliðnum þegar við sóttum umdæmisstjóranámskeið hjá fræðsluteyminu okkar sem er stýrt af Halldóri Kristjánssyni f.v. fjölumdæmisstjóra, síðar í mánuðinum tók við námskeið með öðrum verðandi umdæmisstjórum af norðurlöndunum í Kaupmannahöfn, lokahnykkurinn í fræðslumálunum var síðan þriggja daga umdæmisstjóranámskeið sem við sátum á alþjóðaþinginu í Chicago í lok júní síðastliðið sumar.  Við höfum skipað í umdæmisstjórnir og haldið fyrsta umdæmisstjórnarfund þar sem að umdæmisstjórnir skipulögðu starfsárið framundan eftir þeim áherslum sem við lögðum á undirbúningstímabilinu. 

Helstu markmið fyrir komandi starfsár tengjast félagamálunum, við höfum verið í varnarbaráttu undanfarin ár og eru þar margar skýringar á.  Við höfum fjölgað í vinnuteymum sem að sinna félagamálum og ætlum með því að leggja grunn að greiningu á klúbbum sem eru í vanda.  Á sama tíma er verið að taka upp nýtt embætti verkefnastjóra sem á að vinna með félaga- og fræðslustjóra.  Þessi samþætting gerir teymin stærri og líklegri til þess að ná tilætluðum árangri.  Það er líklegt að það taki nokkurn tíma að fá fulla virkni á þetta nýja skipulag en við teljum að það geti orðið til mikilla bóta og komi til með að tengja klúbba betur hvor við aðra og við yfirstjórn.

Grein Björns Guðmundssonar, Umdæmisstjóra 109B.